Jólagluggar í Kirkjubæ

Fæðing frelsarans

Í byrjun desember flutti skrifstofa prófastsdæmisins úr innbæ Akureyrar og á Ráðhústorg og hlaut um leið það virðulega nafn Kirkjubær. Þessum flutningi fylgir einnig sú nýbreytni að nú mun vígslubiskup verða oftar til viðtals á Akureyri. Við hjónin fengum að nota tækifærið og stilla upp sögum jólaguðsspjallsins í þá þrjá glugga Kirkjubæjar sem snúa að Ráðhústorgi. Í nýjasta myndaalbúminu hér á bibliubrudur.blog.is má skoða nokkrar myndir af því hvernig til tókst. En þær koma ekki í staðinn fyrir að mætt sé á staðinn.


Skemmtilegt verkefni

Pétur og ReginaVið hjónin höfum verið svo heppin að fá að vinna við gerð flettibiblía sem notaðar eru í sunnudagaskólastarfi í flestum kirkjum landsins. Með ,,Bláu flettibiblíunni" nú í haust eru komnar út fjórar flettibiblíur eftir okkur og vonumst við til þess að nýjustu flettibiblíunni verði jafn vel tekið og hinum sem komu út síðastliðinn vetur (Bleika flettibiblían, Jólaflettibiblían og Bláa flettibiblían).

Útgefandinn á flettibiblíunum er Skálholtsútgáfan og hefur verið ánægjulegt að vinna með Eddu Möller og hennar starfsfólki. Hugmyndina að gerð flettibiblía þar sem að biblíubrúður væru notaðar sem myndefni á hún Elín Elísabet Jóhannsdóttir á fræðslusviði Biskupsstofu. Með einstakri bjartsýni kom hún okkur af stað sumarið 2006, en það sumar mynduðum við í sameiningu stóran hluta myndanna fyrir fyrstu flettibiblíurnar með honum Pálma ljósmyndara. Myndirnar í Jólaflettibiblíunni og Bláu flettibiblíunni sem er nýkomin út tók hins vegar Rúnar Þór.

Flettibiblíurnar fást í Kirkjuhúsinu, Laugavegi 31. 


Litið inn á Biblíubrúðunámskeið

Þátttakendur á Biblíubrúðunámskeiði Það mátti sjá einbeitinguna skína úr andliti þátttakenda á námskeiði í Biblíubrúðugerð sem haldið var í Glerárkirkju dagana 11. og 12. febrúar 2006. Fimm konur úr Garðabæ, frá Akureyri og úr Reykjadal sóttu námskeiðið. Skref fyrir skref komust þátttakendur áfram í brúðugerðinni uns 10 fullorðnar brúður og fimm börn höfðu bæst í hóp íslenskra Biblíubrúða.

Dagskrá námskeiðsins hófst á laugardagsmorgni klukkan hálf níu með helgistund í kapellu Glerárkirkju þar sem lagt var út frá fjallræðunni um leið og þátttakendum voru kynntar nokkrar hugmyndir um notkun á Biblíubrúðunum. Að helgistund lokinni tók við föndurvinna og saumaskapur sem stóð til að verða níu á laugardagskvöldinu. Dagskrá sunnudagsins var svipuð en námskeiðinu lauk um sexleytið á sunnudagssíðdeginu.

Það eru mörg handtökin á bak við eina Biblíubrúðu. Þátttakendur þurfa að velta fyrir sér aldri brúðunnar, stærð, velja hörundslit, hár, að vissu leyti vaxtarlag og í lokin fatnað á Biblíubrúðuna. Á meðan á föndri, saumaskap og vangaveltum um Biblíubrúðurnar stendur verður til í hugum flestra þátttakenda ákveðin eða ákveðnar sögupersónur Biblíunnar og þannig nýtist námskeiðið einnig til íhugunar um texta Biblíunnar og þeirra áhrifa sem Orð Guðs hefur á viðstadda.

Sjá einnig eldri frétt á kirkjustarfsvefnum um prufukeyrslu á Biblíubrúðunámskeiði í Munaðarnesi 2005.

Á flicr-myndavef Glerárkirkju er hægt að skoða myndir af námskeiðinu.

Sjá einnig frétt á vef Akureyrarkirkju


Námskeið í gerð hreyfanlegra biblíubrúða

studioÍ flestum sunnudagaskólum landsins er notast við flettimyndabiblíur þar sem er að finna ljósmyndir af biblíubrúðum. Þá hafa nokkrar kirkjur þegar sent starfsfólk sitt eða sjálfboðaliða á námskeið í biblíubrúðugerð til þess að geta auk þess að nota myndirnar stillt upp biblíubrúðum.

Hópar sem hafa áhuga á slíku námsskeiði eru hvattir til að hafa samband, netfangið er thorsteinsson (hjá) mmedia.is

Námskeiðin hefjast að öllu jöfnu á föstudagssíðdegi og standa fram á sunnudagskvöld. Mikilvægt er að allir þátttakendur séu allan tímann á námskeiðinu. Gerð biblíubrúða er listrænt ferli sem krefst vinnu og tíma. Á vinnuferlinu verður til gæðabrúða með eigin persónuleika sem gleður eigandann og aðra.

Á námskeiðinu býr hver þátttakandi til tvær brúður auk lítillar smábrúðu. Leiðbeinandi kemur með allt grunnefni sem þarf en þátttakendur koma með eigin saumaverkfæri og fleira en sérstöku upplýsingablaði þar um er dreift til skráðra þátttakenda.

Á námskeiðinu fá þátttakendur fyrstu þjálfun í að stilla upp brúðunum auk þess sem þeir fá kynningu á fataefni og daglegu lífi á tímum biblíunnar.

Sniðugt? Endilega hafðu samband. 


Biblíubrúður á Íslandi

jairusÁrið 2005 var haldið fyrsta námskeiðið í gerð sveigjanlegra biblíubrúða á Íslandi. Núna eru til um það bil 50 slíkar brúður á Íslandi og voru flestar þeirra notaðar við gerð sunnudagaskólaefnis sem Skálholtsútgáfan hefur gefið út (Bleika flettibiblían, Jólaflettibiblían, Bláa flettibiblían og Græna flettibiblían).

Margar af þeim ljósmyndum sem hér eru birtar eru frá þeirri vinnu en við töku þeirra áttum við ánægjulegt samstarf við Pálma og Rúnar

Árið 2001 lauk ég leiðbeinandanámskeiði hjá ABF (Arbeitsgemeinschaft Biblísche Figuren e.V.) sem eru þýsk samtök sem standa á bak við gerð á þessari tegund biblíubrúða og þykir vænt um að geta nú boðið upp á námskeið í biblíubrúðugerð hér á Íslandi. 

 


Hvað eru Biblíubrúður

mariaBiblíubrúðurnar eru 30 cm háar og eru úr sveigjanlegri vírgrind sem gerir þær hreyfanlegar. Blýfætur gefa þeim þá hæfileika að standa, krjúpa eða ,,ganga". Þannig geta þær sýnt tilfinningar og aðstæður úr sögum. Hægt er að breyta brúðunum með því að skipta um föt þeirra, en fötin eru gerð úr náttúrulegum efnum.

Biblíubrúður opna nýja óvenjulega nálgun á sögur biblíunnar. Senurnar gefa áhorfendum möguleika til að finna sjálfa sig í persónum biblíunnar og boðskap hennar. 

Yfirleitt eru biblíubrúður notaðar í fræðslu um biblíusögur í sunnudagaskóla eða annars staðar þar sem kristin fræðsla fer fram. Vinsælast er að stilla upp tveimur brúðum sem sýna Maríu og Jósef við jötu Jesúbarnsins 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband